Hamarsborg - 2. til 6. nóvember
06 Nóv 2020
Heil og sæl
Vikan fór rólega af stað eftir langt helgarfrí. Fyrir hádegi á þriðjudag tókum við góðan tíma í fataklefanum að klæða okkur og hengja upp úr pokum. Drengirnir sem voru fyrstir út fundu fullt af grjóti og hlóðu vegg á pallinum. Eftir að allir höfðu gengið frá rölltum við upp á róló í Túnhvamminum.
Eftir hádegi var stafavinnan á sínum stað og er hljóð vikunnar Vv. Drengirnir voru ekki lengi að fylla töfluna af V-orðum og varð hún nánast full á met tíma í samverunni fyrir hádegi.

Á miðvikudagsmorgun var haldið upp á afmæli. Hann Nojus varð 5 ára 1. nóvember. Hann valdi danspartý og að skipta á svæði.
Eftir hádegi skelltum við okkur út í garð að ósk drengjanna að moka. Þar var mikil kátína og skemmtileg samvinna að moka stóra holu og móta bílabraut.

Á fimmtudag fyrir hádegi fórum við út með vinkonum og gengum um hverfið og skoðuðum m.a fallega jólaskrautið í Lækjarhvammi.

Eftir hádegi spiluðum við borðspil á svæðum.
Á föstudagsmorguninn fórum við í ævintýraskóginn og á leiðinni þangað lentum við snjókomu sem vakti mikla lukku.
Eftir hádegi var fagnaðarfundur með vinkonum okkar á Vitaborg þar sem við sungum nokkur lög. Við fengum senda kveðju frá sinfóníunni þar sem við getum ekki farið í heimsókn til þeirra sökum Covid-19. Þar sáum við flott tónlistaratriði og við skoðuðum hvaða hljóðfæri voru að spila fyrir okkur.
Takk fyrir vikuna og góða helgi.