news

Hamarsborg - 2. til 6. september

06 Sep 2019

Heil og sæl

Vikan byrjaði á því að við fengum okkur göngu á leiksvæðið í Túnhvamminum og fórum í boðhlaup og aðra hlaupaleiki. Fyrir hádegið lögðum við svo inn staf vikunnar sem er að þessu sinni Ss. Taflan okkar er stútfull af orðum og er áhuginn fyrir því að bæta við nýjum orðum mikill. Um að gera að ræða þetta við kvöldverðarborðið og koma svo með miða í leikskólann með orðum til að bæta á töfluna.

Fyrir hádegi á miðvikudag fengum við okkur gönguferð öll saman og skoðuðum farartæki í hverfinu og pældum í því hvað væru farartæki. Eftir hádegi nýttum við okkur komu varaforsteta Bandaríkjanna og fórum og fylgdumst með bílalestinni koma í bæinn. Það var þvílíka farartækjaveislan sem beið okkar þar, fjölmörg lögreglumótorhjól, sjúkrabílar, löggubílar og margt fleira.

Á fimmtudag vorum við með vináttustund, við byrjum hana á því að syngja lagið við erum vinir. Því næst ræðum við hvað er að gerast á spjaldinu sem kennarinn velur og reynum að kryfja vandamálið sem er á spjaldinu. Næst sögðum við falleg orð við vini okkar og svo fórum við í bolta leikinn sem hann Blær kenndi okkur.

Fyrir hádegi á föstudag fórum við út til þess að finna plöntu vikunnar fyrir næstu viku og fundum við lambagras.

Eftir hádegi á föstudag var svo fagnaðarfundur sem við stjórnuðum og voru allir flottir að kynna.

Stóri hópur

Eftir hádegi á mánudag unnum við með staf vikunnar lituðum og klipptum hann út. Við föndruðum svo stjörnu fyrir Ss og óskastein fyrir Óó. Föndrið geymum við svo þangað til í febrúar þegar við höldum sýningu á því sem við höfum gert.

Fyrir hádegi á þriðjudag hittum við vinkonur okkar á Vitaborg og fórum með þeim í garðinn þar sem við tókum steina úr garðinum til þess að þeir fari ekki á flug.

Eftir hádegi fórum við í salinn þar sem við fórum í orðaboðhlaup. Við unnum með orðhópana ávextir, líkaminn, skordýr og fatnað.

Fyrir hádegi á fimmtudag hittum við vinkonur okkar á Vitaborg. Við fórum með þeim á leiksvæðið fyrir ofan sundlaugina til þess að fara í vinaboðhlaup.

Mið hópur

Eftir hádegi á mánudag fórum við í vinahópastarf með miðhópum á Álfaborg, Tröllaborg og Vitaborg. Að þessu sinni fórum við í leiki á túninu.

Fyrir hádegi á þriðjudag fórum unnum við með stafinn Ss og eftir hádegi hittum við Álfaborgarvini okkar í litla garðinum.

Á fimmtudagsmorguninn var vinahópastarf hjá okkur þar sem við hittumst inni og föndruðum stjörnu fyrir stafinn Ss.