news

Vitaborg vikan 2. - 6. september

06 Sep 2019

Vikan 2. - 6. september

"Mér finnst rigningin góð" á vel við þessa dagana, okkur finnst rigningin alls ekkert slæm, það er gaman að skella sér í pollagalla og stígvéli og fara út og bussla og leika sér í bleytunni. Því er mikilvægt að vera með föt til skiptanna og hafa pollagalla og stígvéli ávallt með í leikskólann. Stundum er svo gaman að bussla að börnin gleyma sér alveg í gleðinni og verða vot í gegn og þá er nauðsynlegt að það séu föt til staðar.

Fugl ágústmánaðar var álft, við fórum niður að læk til að finna álft en því miður þá fundum við enga þar eða í nágrenninu. Í einum göngutúrnum í nærumhverfinu ráku stúlkurnar augun í eina álft, myndin talar sínu máli.

Hljóð vikunnar var "Ss" og orð vikunnar Spergilkál

Báðir hópar....

Fyrir hádegi á miðvikudag unnum við saman inni og bjuggum til vinareglur og teiknuðum mynd af okkur sjálfum í vinahringinn. Eftir hádegi fórum við upp á Stóru brú og fylgdumst með farartækjaröðinni sem fylgdi varaforseta Bandaríkjanna. Við sáum mörg farartæki eins og lögreglumótórhjól, lögreglubíla, sjúkrabíla, rútur og fleiri bifreiðar í öllum stærðum og gerðum.

Fyrir hádegi á föstudag héldum við uppá afmælið hennar Gerðar en hún er 5 ára gömul í dag. Eftir hádegi fórum við á fagnaðarfund.

Bjargar og Völlu hópur...

Fyrir hádegi á mánudag fórum við út á tún í ýmsa leiki og eftir hádegi fórum við í salinn.

Fyrir hádegi á þriðjudag fórum við út í garð og hreinsuðum upp stóru grjótin og sópuðum og gerðum snyrtilegt. Eftir hádegi unnum við í tölustafaheftinu okkar.

Fyrir hádegi á fimmtudag fórum við í vinahópastarf, við fórum niður á fótboltavöll fyrir ofan Suðurbæjarlaug og fórum í nokkrar boðhlaupsleiki og eftir hádegi unnum við stafavinnu vikunnar.

Tönju hópur...

Fyrir hádegi á mánudag lásum við söguna um litlu hvítu hænuna í litla hvíta húsinu og teiknuðum næst mynd af því sem við höfðum lesið. Eftir hádegi fóru allir miðhóparnir saman út í skemmtilega hlaupaleiki.

Fyrir hádegi á þriðjudag gerðum við möppur undir verkefnin sem við gerum í stafavinnunni á fimmtudögum.


Eftir hádegi fengum við okkur göngutúr og skoðuðum túnsúrur og lærðum munin á túnsúrum og hundasúrum. Við enduðum göngutúrinn á róló þar sem stelpurnar léku sér í frjálsum leik.

Fyrir hádegi á fimmtudag hittust miðhóparnir á Vitaborg í stafavinnu. Eftir hádegi fórum við í salinn þar sem við gerðum ýmsar hlaupaæfingar og enduðum á bráðskemmtilegri þrautabraut.

Takk fyrir vikuna kæru vinir og góða helgi

Björg, Valla og Tanja