news

Vitaborg vikan 9. - 13.september

13 Sep 2019

Heil og sæl!

Hljóð vikunnar var "Áá" og orð vikunnar árangur.

Fugl mánaðarins er Hrafninn

Nú í haustbyrjun er ágætt að yfirfara fatakassann með aukafötum barnanna en í honum þarf alltaf að vera nærföt, sokkar/sokkabuxur, bolur/peysa og buxur. Einnig þarf pollagalli, stígvél, húfa/buff og vettlingar að vera til staðar í hólfinu. Við hvetjum ykkur til að merkja allan fatnað barnanna vel til að forðast rugling.

Þegar börnin eru komin á elstu deild leikskólans eru gerðar meiri kröfur til þeirra varðandi sjálfhjálp, t.d. í fataklefanum klæða þau sig sjálf, ganga frá skóm og öðrum útifatnaði og á matartíma skammta þau sér mat og ganga frá matardiskum eftir matinn. Sem betur fer erum við ekki öll eins, sumir þurfa að æfa sig í að renna rennilás og aðrir þurfa að æfa sig í að raða skónum.

Þó svo að leikskólastafið gangi mikið út á reglur og fyrirmæli þá er mjög gaman hjá okkur, við sláum líka á létta strengi og tökum létt dansspor.

Frjálsi leikurinn er á sínum stað þar sem ímyndunaraflið fær að leika lausum hala.

Báðir hópar.....

Eftir hádegi á miðvikudag fórum við allar út í garð að leika í rigningunni.
Í dag var fyrsti umhverfisráðsfundurinn hjá okkur þar sem við vorum að ákveða hvaða þemu við ætlum að vinna með næstu tvö árin. Fyrir valinu var loftlagsbreytingar og samgöngur. Við byrjuðum á því að velja okkur tré í næsta umhverfi sem við ætlum að fóstra næstu ár, völdu stúlkurnar birkitré sem er við gangstíginn á milli Suðurbæjarsundlaugar og leikskólans

Bjargar og Völlu hópur...

Vikan byrjaði hjá okkur á því að rölta niður að bæjarlæknum til að leita af álftum og viti menn þar sem við biðum eftir strætó á heimleið þá flugu tvær álftir beint fyrir framan nefið á okkur, okkur til mikillar gleði.

Eftir hádegi skiptum við okkur upp á svæði þar sem við lékum okkur.

Tölum saman var á sínum stað fh. á miðvikudeginum og eh. fórum við út með Bjarnheiði.

Í vinahópastarfi á þriðjudeginum fórum við út í garð og lékum okkur saman þar og á fimmtudeginum fórum við í gönguferð um nærumhverfi sem endaði á leiksvæði við Túnhvamm.


Eftir hádegi á þriðjudeginum unnum við í tölustafaheftinu okkar og eftir hádegi fimmtudag vatnslitum við mynd af svönunum.

Tönju hópur...

Fyrir hádegi á mánudag fengum við útprentaðar myndir og æfðum okkur að lita inn fyrir línurnar, lita þétt og nota marga liti. Eftir hádegi var vinahópastarf og fórum við í göngutúr og gerðum skemmtilegar fyrirmælaæfingar og enduðum á frjálsum leik á róló við suðurbæjarlaug.

Fyrir hádegi á þriðjudag töluðum við um húsdýrin og teiknuðum uppáhalds dýrið okkar. Eftir hádegi var ferðinni heitið í göngutúr þegar við komum auga á stóran poll og var æðislega gaman að leika í honum.

Fyrir hádegi á miðvikudag fórum við út og lékum okkur með bolta.

Fyrir hádegi á fimmtudag var stafavinna og að þessu sinni föndruðu stelpurnar uppáhalds ávextina sína. Eftir hádegi skelltum við okkur í salinn þar sem við gerðum alls kyns æfingar og æfðum okkur að gera kollhnís.

Fyrir hádegi á föstudag fórum við í göngutúr með Þóru.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.

Björg, Valla og Tanja