Móttaka nýrra nemenda fer eftir aldri barna og hvort þau hafa áður verið í leikskóla eða eru að fara í fyrsta sinn að heiman.

Aðlögunin tekur í flestum tilfellum um það bil eina viku. Hún hefst með heimsókn til kennara hópsins þar sem foreldri og barn staldra við í stutta stund og umhverfið skoðað. Gengið er frá tíma í viðtal næsta dag milli foreldra við kennara barnsins og gerð áætlun um aðlögunina.

Skólanámskrá leikskólans má finna á heimasíðunni "um leikskólann" og síðan "námskrá" þar koma fram allar upplýsingar um starfið í skólanum.

Hér á eftir koma nokkrir punktar um mataræði og næringu í leikskólanum.

Mataræði og næring.

Matseðill leikskólans er ekki tæmandi yfir það sem er á boðstólum hverju sinni, hér er ætlunin að fara yfir það helsta sem er á bak við matseðlana.

Leikskólinn fylgir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni.

Við höfum fjölbreytni í fyrirrúmi og gætum þess að hlutfall próteins, fitu, kolvetna og trefja sé rétt í samsetningu matseðilsins.

Prótein 10-20%. Fita 25-35% (hörð fita ekki meira en 10%). Kolvetni 50-60%. Trefjar 25 gr.

Flest börnin fá morgunverð, hádegisverð og nónhressingu á leikskólanum, það gerir um 70% af næringu þeirra þá daga sem þau dvelja hjá okkur.

Stefna okkar er að nota ætíð ferskasta hráefni sem kostur er á.

Allur fiskur kemur ferskur frá Fiskbúðinni við Trönuhraun.

Kjötvörur koma frá Kjöthúsinu og kjúklingar frá Reykjagarði.

Lífrænt ræktað grænmeti er á boðstólum svo lengi sem það er fáanlegt frá framleiðanda, annars notum við annað íslenskt grænmeti.

Nánast öll brauð eru bökuð á leikskólanum, hráefnið er, spelt bæði gróft og fínt, korn, klíði, kím, heilhveiti, hveiti og rúgmjöl ásamt ýmsum kornblöndum.

Mikil áhersla er á neyslu ávaxta og grænmetis.

Fastir ávaxtatímar eru bæði fyrir og eftir hádegi.

Allar kaldar sósur svo og dressing á hrásalat eru lagaðar úr síaðri AB-mjólk. Allur matur er kryddaður við hæfi barna.

Morgunverður:

Hafragrautur er fjórum sinnum í viku og eru þá ávallt ávextir með og AB-mjólk.

Morgunkorn tvisvar sinnum þá er AB-mjólk og mjólk ásamt rúsínum á borðum. Stöku sinnum er boðið upp á ristað brauð. Lýsi er alltaf gefið með morgunverðinum, ávallt er í boði vatn.

Ávaxtatími kl:10.00.

Hádegisverður:

Fiskur er á boðstólum tvisvar sinnum í viku. Ýmist soðinn, steiktur eða bakaður. Kjöt er á boðstólum einu sinni í viku, kjúklingar, lambakjöt eða nautakjöt. Súpa, hrísgrjónagrautur og pastaréttir eru á þriggja vikna fresti. Pizza er einu sinni í mánuði við mikinn fögnuð, grænmetisréttir einu sinni í mánuði. Það er mikið af fersku og soðnu grænmeti borið fram með matnum og börnin eru sérstaklega dugleg að borða það.

Ávallt er boðið upp á vatn til drykkjar.

Ávaxtatími kl:14.00.

Nónhressing:

Öll brauð eru bökuð á leikskólanum (að undanskildu flatbrauði) ásamt kringlum, snúðum ostaslaufum, pissa snúðum og smábrauðum.

Oftast eru tvær áleggstegundir í boði með smurðu brauði. Einu sinni í viku eru bruður, hrökkbrauð og hafrakex. Það er gert í tvennum tilgangi bæði til að auka neyslu trefja og þjálfa börnin í að tyggja. Til drykkjar er boðið upp á mjólk, vatn og hreina ávaxtasafa.