Móttökuáætlun barna

Deildastjóri boðar foreldra nýnema í fyrsta viðtal áður en leikskóladvöl hefst og áætlun er gerð um aðlögun barnsins.

Við aðlögun er farið eftir móttökuáætlun leikskólans en þó alltaf tekið mið af hverju barni og fjölskyldu þess. Móttaka barna fer eftir aldri þeirra og hvort þau hafa áður verið í leikskóla.

Mánudagur – kl. 9:30 til 10:30.
Þriðjudagur – kl. 9:30 til 11:30 – foreldrar fá sér kaffi í kaffistofu starfsmanna.
Miðvikudagur – kl. 9:00 til 12:00 – foreldrar skreppa frá í samráði við kennara barnsins. Börnin borða morgun- og hádegismat.
Fimmtudagur – kl. 9:00 – tíminn lengdur fram yfir hvíld, kennari hringir þegar barnið vaknar.
Föstudagur – kl. 9:00 til 15:30.

Skólanámskrá leikskólans veitir upplýsingar um skólastarfið hér í Hvammi. Mikilvægt er að foreldrar kynni sér námskrána vel og verði þannig meðvitaðir um verklag og áherslur okkar í starfinu með börnunum. Skólanámskráin er hér á heimasíðunni undir "skólastarf".
Skóladagatal má finna á heimasíðunni með upplýsingum um skipulagsdaga og helstu viðburði.

Aðgangur að innri vef fyrir foreldra fer í gegnum "Innskráning í Karellen" hérna efst á heimasíðunni. Skáið netfangið ykkar sem er skráð hjá skólanum. Þá fáið þið sendan tölvupóst með slóð, smellið á slóðina til þess að virkja aðganginn ykkar og þá fáið þið upp valmöguleikann að búa til lykilorð. Nánari upplýsingar eru á www.karellen.is

Karellen-app er app sem við mælum með að foreldrar nái í. Hægt er að nálgast appið í App store og í Google play. Aðgangur aðstandenda í innra kerfinu og appinu gefur yfirsýn og upplýsingar um dag barnsins í skólanum: viðvera, skilaboð, dagatal, myndasafn, fjölskylda, svefn.


Matseðill vikunnar er í appinu og á heimasíðunni. Leikskólinn fylgir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni.

Við höfum fjölbreytni í fyrirrúmi og gætum þess að hlutfall próteins, fitu, kolvetna og trefja sé rétt í samsetningu matseðilsins. Prótein 10-20%. Fita 25-35% (hörð fita ekki meira en 10%). Kolvetni 50-60%. Trefjar 25 gr. Flest börnin fá morgunverð, hádegisverð og nónhressingu á leikskólanum, það gerir um 70% af næringu þeirra þá daga sem þau dvelja hjá okkur.

Stefna okkar er að nota ætíð ferskasta hráefni sem kostur er á. Allur fiskur kemur ferskur frá Fiskbúðinni við Trönuhraun. Kjötvörur koma frá Kjöthúsinu og kjúklingar frá Reykjagarði. Lífrænt ræktað grænmeti er á boðstólum svo lengi sem það er fáanlegt frá framleiðanda, annars notum við annað íslenskt grænmeti. Gróft brauð, hráefnið er spelt bæði gróft og fínt, korn, klíði, kím, heilhveiti, hveiti og rúgmjöl ásamt ýmsum kornblöndum.

Mikil áhersla er á neyslu ávaxta og grænmetis. Fastir ávaxtatímar eru bæði fyrir og eftir hádegi. Allar kaldar sósur svo og dressing á hrásalat eru lagaðar úr síaðri súrmjólk. Allur matur er kryddaður við hæfi barna.

Morgunverður. Hafragrautur er fjórum sinnum í viku og eru þá ávallt ávextir með og suma daga súrmjólk. Lýsi er alltaf gefið með morgunverðinum, ávallt er í boði vatn.

Ávaxtatími kl.10.30.

Hádegisverður. Fiskur er á boðstólum tvisvar sinnum í viku. Ýmist soðinn, steiktur eða bakaður. Kjöt er á boðstólum einu sinni í viku, kjúklingar, lambakjöt eða nautakjöt. Súpa, hrísgrjónagrautur, pastaréttir, grænmetisréttir eru einnig á matseðlinum. Það er mikið af fersku og soðnu grænmeti borið fram með matnum og börnin eru sérstaklega dugleg að borða það. Ávallt er boðið upp á vatn til drykkjar.

Ávaxtatími kl. 13:50

Nónhressing. Oftast eru tvær áleggstegundir í boði með smurðu brauði. Einu sinni í viku eru bruður, hrökkbrauð og hafrakex. Til drykkjar er boðið upp á mjólk og vatn.