Móttökuáætlun barna. Deildastjóri boðar foreldra nýnema í fyrsta viðtal áður en leikskóladvöl hefst og áætlun er gerð um aðlögun barnsins. Við aðlögun er farið eftir móttökuáætlun leikskólans en þó alltaf tekið mið af hverju barni og fjölskyldu þess. Móttaka barna fer eftir aldri þeirra og hvort þau hafa áður verið í leikskóla. Mánudagur kl. 9:30 til 10:30. Þriðjudagur kl. 9:30 til 11:30 foreldrar fá sér kaffi í kaffistofu starfsmanna. Miðvikudagur kl. 9:00 til 12:00 foreldrar skreppa frá í samráði við kennara barnsins, börnin borða morgun- og hádegismat. Fimmtudagur kl. 9:00 – tíminn lengdur fram yfir hvíld, kennari hringir þegar barnið vaknar. Föstudagur kl. 9:00 til 15:30. Við upphaf skólagöngu ber að minna á hvað á að vera í hólfum barnanna. Einnig að minna á að hafa aðeins það í hólfinu sem börnin þurfa að nota í leikskólanum. Daglega, en þó eftir veðri, þarf að vera í hólfinu: Hlý peysa, húfa og ullarsokkar. Auka par af vettlingum. Pollagalli og stígvél. Kuldagalli og góðir skór í snjónum. Aukafatnaður sem þarf að vera í kassa í hólfinu: Auka nærföt. Auka sokkar, tvenn pör. Auka buxur. Auka síðerma bolur. Minnum á að foreldrar þurfa að: Taka til og yfirfara hólfin og kassana á hverjum degi. Bæta þarf aukafötum í kassana jafnóðum og óhrein föt fara heim með barninu. Best er að börnin klæðist fatnaði sem þau ráða vel við að klæða sig í og úr. Merkja þarf fatnað og skó barnanna.

Skólanámskrá veitir upplýsingar um skólastarfið í Hvammi. Mikilvægt er að foreldrar kynni sér námskrána vel og verði þannig meðvitaðir um verklag og áherslur okkar í starfinu með börnunum. Skólanámskráin er hér á heimasíðunni undir "skólastarf".
Skóladagatal er einnig undir skólastarfið, þar má finna upplýsingar um skipulagsdaga og helstu viðburði yfir skólaárið.

Aðgangur að innri vef fyrir foreldra fer í gegnum "Innskráning í Karellen" hérna efst á heimasíðunni. Skáið netfangið ykkar sem er skráð hjá skólanum. Þá fáið þið sendan tölvupóst með slóð, smellið á slóðina til þess að virkja aðganginn ykkar og þá fáið þið upp valmöguleikann að búa til lykilorð. Nánari upplýsingar eru á www.karellen.is

Karellen-app er app sem við mælum með að foreldrar nái í. Hægt er að nálgast appið í App store og í Google play. Aðgangur aðstandenda í innra kerfinu og appinu gefur yfirsýn og upplýsingar um dag barnsins í skólanum: viðvera, skilaboð, dagatal, myndasafn, fjölskylda, svefn.

Matseðill vikunnar er í Karellen-appinu og á heimasíðu leikskólans Hvamms. Í skólanum er boðið upp á morgun- og hádegisverð ásamt síðdegishressingu auk þess eru ávaxtatímar kl. 10:30 og kl. 13:50.

Sameiginlegur matseðill er fyrir leikskóla Hafnarfjarðarbæjar þar sem horft er til hollustu, fjölbreytni og gæða þess matar sem boðið er upp á. Slíkt fyrirkomlag stuðlar ekki eingöngu að hollu mataræði og heilbrigðum matarvenjum heldur hjálpar það til við að draga úr matarsóun og verndar þannig umhverfi okkar. Á sameiginlegum matseðli leikskólanna er lagt er upp með að hafa fisk tvisvar sinnum í viku, kjötrétti 1-2 sinnum í viku og spónamat og/eða grænmetisrétti 1-2 sinnum í viku. Morgun- og hádegisverður ásamt síðdegishressingu og millibita eiga að sjá börnunum fyrir 70% af orku- og næringargildi dagsins.

Næringarsáttmáli er í gildi í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar. Þar kemur fram að holl og góð næring er öllum mikilvæg, ekki síst börnum sem eru að vaxa og þroskast og sýna rannsóknir að mataræði barna hefur áhrif á vellíðan þeirra og heilsu. Leikskólar Hafnarfjarðar, sem mikilvægir þátttakendur í uppbyggingu heilsueflandi samfélags, kappkosta því að fylgja opinberum ráðleggingum um mataræði og bjóða börnum upp á fjölbreytt hráefni sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi. Boðið er upp á grænmeti og/eða ávexti daglega í tengslum við allar máltíðir leikskólanna m.a. með og í mat, sem álegg og millibita. Fiskur að minnsta kosti tvisvar í viku og kjöt í hófi. Fituminni mjólkurvörur fyrir börn tveggja ára og eldri. Vatn er aðgengilegt fyrir börnin yfir daginn auk þess sem það er drukkið samhliða morgun- og hádegisverði auk síðdegishressingar. Allir leikskólar bjóða upp á þorskalýsi daglega. Lögð er áhersla á að nota íslenska framleiðslu eins og kostur er og jafnfram leitast við að auka hlut lífrænna matvæla. Leitast er við að nota vörur merktar Skráargatið sem er samnorræn hollustumerking. Lögð er áhersla á að nota trefjaríkar og heilkorna vörur, mýkri og hollari fita, minna salt og viðbættur sykur í lágmarki. Leitast er við að bjóða þeim börnum sem eru með ofnæmi og óþol upp á fæði með svipaða næringarsamsetningu og það fæði sem taka þarf út. Mikilvægt er að fá læknisvottorð fyrir barnið svo ekki sé verið að sniðganga fæðu að óþörfu. Afmælisdagar eru hátíðisdagar í lífi hvers barns og leggja leikskólarnir sig fram um að gera barninu dagamun á einvern hátt. Ef um mat er að ræða er alla jafna boðið upp á fjölbreytta ávexti í einhverju formi. Holl og næringarrík fæða er mikilvæg í skólastarfinu en matur hefur einnig félagslegt gildi og honum fylgja ákveðnar matarhefðir. Leikskólar Hafnarfjarðar standa vörð um íslenska matarhefð og fyrir vikið getur t.d. verið boðið upp á þorramat á þorranum, saltkjöt og baunir á sprengidag og reykt og/eða saltað kjöt og smákökur fyrir jólin. Afslappað andrúmsloft við matarborðið og nægur tími til að matast þar sem börnin hafa góðar fyrirmyndir af kennurum sínum eru grundvöllur heilbrigðra matarvenja til framtíðar. Því leggur starfsfólk leikskóla Hafnarfjarðar sig fram um að búa til jákvætt umhverfi sem hvetur börnin til heilsusamlegra ákvarðana er kemur að mat.