Næringarsáttmáli er í gildi í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar. Þar kemur fram að holl og góð næring er öllum mikilvæg, ekki síst börnum sem eru að vaxa og þroskast og sýna rannsóknir að mataræði barna hefur áhrif á vellíðan þeirra og heilsu. Leikskólar Hafnarfjarðar, sem mikilvægir þátttakendur í uppbyggingu heilsueflandi samfélags, kappkosta því að fylgja opinberum ráðleggingum um mataræði og bjóða börnum upp á fjölbreytt hráefni sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi. Boðið er upp á grænmeti og/eða ávexti daglega í tengslum við allar máltíðir leikskólanna m.a. með og í mat, sem álegg og millibita. Fiskur að minnsta kosti tvisvar í viku og kjöt í hófi. Fituminni mjólkurvörur fyrir börn tveggja ára og eldri. Vatn er aðgengilegt fyrir börnin yfir daginn auk þess sem það er drukkið samhliða morgun- og hádegisverði auk síðdegishressingar. Allir leikskólar bjóða upp á þorskalýsi daglega. Lögð er áhersla á að nota trefjaríkar og heilkorna vörur, mýkri og hollari fita, minna salt og viðbættur sykur í lágmarki. Leitast er við að bjóða þeim börnum sem eru með ofnæmi og óþol upp á fæði með svipaða næringarsamsetningu og það fæði sem taka þarf út. Mikilvægt er að fá læknisvottorð fyrir barnið svo ekki sé verið að sniðganga fæðu að óþörfu. Afmælisdagar eru hátíðisdagar í lífi hvers barns og leggja leikskólarnir sig fram um að gera barninu dagamun á einhvern hátt.

Holl og næringarrík fæða er mikilvæg í skólastarfinu en matur hefur einnig félagslegt gildi og honum fylgja ákveðnar matarhefðir. Leikskólar Hafnarfjarðar standa vörð um íslenska matarhefð og fyrir vikið getur t.d. verið boðið upp á þorramat á þorranum, saltkjöt og baunir á sprengidag og reykt og/eða saltað kjöt og smákökur fyrir jólin. Afslappað andrúmsloft við matarborðið og nægur tími til að matast þar sem börnin hafa góðar fyrirmyndir af kennurum sínum eru grundvöllur heilbrigðra matarvenja til framtíðar. Því leggur starfsfólk leikskóla Hafnarfjarðar sig fram um að búa til jákvætt umhverfi sem hvetur börnin til heilsusamlegra ákvarðana er kemur að mat.

Leikskólar Hafnarfjarðar starfa eftir nýlegum næringarsáttmála og elda eftir samræmdum matseðlum. Sáttmálinn byggir á mikilli greiningarvinnu, næringarútreikningum, samstarfi og samtali viðeigandi aðila ásamt mati nemenda og starfsmanna. Samræmdir matseðlar leikskóla Hafnarfjarðar byggja að á matseðlum Skólar ehf. sem hefur um árabil þróað sína matseðla og tekið m.a. mið af mjög nákvæmum næringarútreikningum. Ólöf Kristín Sívertsen hefur starfað sem verkefnastjóri næringarsáttmálans og unnið að innleiðingu hans og samræmingu matseðla með leikskólastjórum og matráðum leikskólanna. Hafnarfjarðarbær lítur á það sem eitt af hlutverkum sínum að tryggja heilsusamlega næringu í sínum skólum. Þetta breytta fyrirkomulag stuðlar ekki eingöngu að hollu mataræði og heilbrigðum matarvenjum heldur auðveldar fyrirkomulagið líka skipulag og hjálpar til við að draga úr matarsóun og þar með verndun á umhverfinu, eins og fram kemur í sáttmálanum sjálfum.

Í næringarsáttmála leikskóla Hafnarfjarðar kemur m.a fram að holl og góð næring er öllum mikilvæg og þá ekki síst börnum sem eru að vaxa og þroskast og sýna rannsóknir að mataræði barna hefur áhrif á vellíðan þeirra og heilsu. Leikskólar Hafnarfjarðar eru mikilvægir þátttakendur í uppbyggingu heilsueflandi samfélags og vill Hafnarfjarðarbær með þessu mikilvæga verkefni fylgja eftir opinberum ráðleggingum um mataræði og bjóða börnum skólanna upp á fjölbreytt hráefni sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi.