Hvammur er 6 deilda leikskóli, sem stendur við Staðarhvamm 23 í Hafnarfirði.

Skólinn er staðsettur neðan við St. Josefskirkju sem stendur á Jófríðarstaðahól við Grænugrófarlæk rétt ofan við Suðurbæjarlaugina á skjólsælum stað í suðurbæ Hafnarfjarðar.

Leikskólinn Hvammur starfar í anda Hjallastefnunnar. Deildar skólans eru kynjaskiptar og efniviður leikskólans er opinn það er hefur fleiri en eina lausn. Áhersla er á vináttu og það að stunda jákvæð samskipti og jafnrétti. Hvammur varð forystuskóli í markvissri málörvun með áherslu á tvítyngi haustið 2006 og hefur unnið markvisst með málörvun allar götur síðan. Leikskólinn flaggar Grænfána, fyrsta fánann fengum við á 25 ára afmæli skólans 2013.

Leikskólinn hefur tvisvar hlotið styrk frá Evrópusambandinu til að taka þátt í Comeníusarverkefni fyrst 2009-2011 og aftur 2011-2013.

Upphaflegt húsnæði leikskólans er frá árinu 1988 en endurbætt og einni deild bætt við 2003. Lausar kennslustofur komu við skólann 2008 og þar fer fram kennsla elstu barna leikskólans. Húsnæði skólans er 670,9 fermetrar að flatarmáli, þá eru lausu kennslustofurnar ekki taldar með. Salur leikskólans stækkaði við breytingarnar 2003 og nýtist nú mun betur til hreyfileikja.

Lóðin býður uppá mikla möguleika og er skemmtileg með brekkum og lautum.

Einkunnarorð skólans eru: Jákvæð samskipti, Jafnrétti, vinátta.