Hvammur er sex deilda leikskóli og deildirnar eru allar kynjaskiptar, með því viljum við tryggja að bæði kynin hafi jafnan aðgang að rými og leikefni. Boðið er upp á breytilegan dvalartíma frá 4 að 8,5 tímum á dag. Í miðrými hússins er aðstaða starfsfólks, leikfanga-, málörvunar- og bókasafn. Salur er í miðrýminu sem nýttur er til náms, hreyfingar og fundahalda. Deildar skólans eru misstórar, oftast á hver hópur skólans sína heimastofu. Í leikskólanum er metnaðarfullt námsumhverfi þar sem unnið er með skapandi opinn efnivið sem hefur fleiri en eina lausn og er eins á öllum deildum. Umhverfi leikskólans gefur börnunum færi á að vera virk og forvitin um umhverfi sitt. Lögð er áhersla á að börnin tileinki sér góða umgengni um náttúruna njóti hennar og virði. Umhverfi leikskólans er mikið notað til gönguferða og hópleikir eru vinsælir á túninu fyrir framan skólann. Lóð leikskólans er skemmtileg og býður upp á fjölbreytta útileiki.